Ályktanir aðalfundar LÍ 2019

Aðalfundur Læknafélags Íslands (LÍ) 2019 sem haldinn var á Siglufirði 26. – 27. september sl. samþykkti fjórtán ályktanir um margvísleg málefni sem snerta heilbrigðismál, auk fimm, sem snúa að innra starfi félagsins og einnar sem send verður heilbrigðisstofnunum.

Ályktun um heilbrigðismál skorar á stjórnvöld að hlíta þjóðarvilja og auka í áföngum framlög til heilbrigðismála til jafns við það sem þekkist á Norðurlöndunum. LÍ lýsir sig reiðubúið til samstarfs við stjórnvöld um nauðsynlega eflingu heilbrigðiskerfisins.

Ályktun um heimilislækningar í dreifbýli skorar á heilbrigðisráðherra að efla samvinnu við Félag ísl. heimilislækna til að bæta mönnun heimilislækna í dreifbýli enda öllum ljóst að þar er alvarlegur mönnunarvandi.

Ályktun um stjórnskipulag heilbrigðisstofnana og læknisfræðilega ábyrgð hvetur heilbrigðisráðherra til að tryggja að áhrif yfirlækna á stjórnun lækninga á Landspítala og öðrum heilbrigðisstofnunum sé í samræmi við lög landsins og bendir á tvö álit umboðsmanns Alþingis í því sambandi. Þá leggur aðalfundurinn þunga áherslu á að aðhaldsaðgerðir í rekstri heilbrigðisstofnana komi ekki niður á gæðum og öryggi þjónustu við sjúklinga. Þá telur fundurinn ófaglegt að ábyrgð á læknisþjónustu sé varpað á aðrar fagstéttir án aðkomu lækna með sérþekkingu á viðkomandi sviði.

Ályktun um nýtt skipurit Landspítala bendir á mikilvægi þess að læknar með sérfræðimenntun komi helst til álita til starfa forstöðumanna klínískra sviða í nýju skipuriti Landspítala.

Ályktun vegna draga að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu skorar á heilbrigðisráðherra að hætta við að leggja fram þetta lagafrumvarp í óbreyttri mynd og mótmælir því harðlega. Það geri ráð fyrir að læknaráð og hjúkrunarráð verði lögð niður, ekki verði lengur lögskylt að hafa framkvæmdastjóra lækninga og framkvæmdastjóra hjúkrunar við heilbrigðisstofnanir og skipuritum þeirra megi breyta án staðfestingar ráðherra. Þannig verði ekki lengur tryggt að læknir sitji í framkvæmdastjórn heilbrigðisstofnunar. Fundurinn telur þessar breytingar vanhugsaðar og bendir á að þær eru lagðar til án samráðs.

Ályktun um vinnu við jafnlaunavottun hjá Landspítala telur það alvarleg mistök að halda áfram með starfsmatskerfi til jafnlaunavottunar sem Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri vinni að. Kerfið sé ónothæft þar sem það hvorki fangi eðli né inntak læknastarfsins.

Ályktun um rafræna sjúkraskrá krefst þess að heilbrigðisyfirvöld og stjórnendur heilbrigðisstofnana hafi lækna í forystu í ákvörðuum og þróun um miðlæga rafræna sjúkraskrá.

Ályktun um framhaldsmenntun lækna á Íslandi fagnar þeirri grósku sem nú er í uppbyggingu framhaldsnáms í læknisfræði hér á landi og hvetur til þess að fjármögnun til frekari uppbyggingar verði tryggð.

Ályktun um rannsóknar- og vísindastarf á heilbrigðisstofnunum lýsir yfir áhyggjum af dvínandi rannsóknar- og vísindastarfsemi á heilbrigðisstofnunum landsins, einkum Landspítala. Skorað er á heilbrigðisráðherra að auka fé til slíkrar starfsemi með viðbótarfjármunum afmörkuðum í fjárlögum sem renni í Heilbrigðisvísindasjóð sem yrði stofnaður.

Ályktun um lyfjastefnu, viðvarandi lyfjaskort og undanþágulyf kallar eftir endurskoðun lyfjastefnu sem feli í sér virk og raunsæ úrræði til að bregðast við lyfjaskorti.

Ályktun um öldrunarþjónustu lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu öldrunarmála og hvetur stjórnvöld til úrbóta með frekari uppbyggingu öldrunarþjónustu.

Ályktun um bólusetningar hvetur foreldra og forráðamenn barna til að bólusetja börn sín samkvæmt ráðleggingum hverju sinni og bendir á mikilvægi þess að stjórnvöld innleiði hratt nýjungar í bólusetningum.

Ályktun gegn auknu aðgengi að áfengi bendir á að aðgengisstýring sé eitt sterkasta vopnið í forvörnum. Þar er einnig skorað á stjórnvöld að leggja fram aðgerðaráætlun til að bregðast við ólöglegum áfengisauglýsingum.

Ályktun um bann við sölu rafretta skorar á Alþingi að festa í lög bann við sölu á rafrettum og tengdum varningi.