Ákall stjórnar Læknafélags Íslands


Ákall stjórnar Læknafélags Íslands
til íslenskra stjórnvalda um að beita sér fyrir að alþjóðalög og hlutleysi heilbrigðisstarfsfólks verði virt í deilu Ísraels og Palestínu, í samræmi við Genfarsáttmálann

Stjórn Læknafélags Íslands samþykkti eftirfarandi ákall til íslenskra stjórnvalda á stjórnarfundi 16. október 2023:

„Læknafélag Íslands harmar dauðsföll saklausra borgara beggja vegna víglínunnar undanfarna daga, þar á meðal heilbrigðisstarfsfólks. Læknafélagið stendur þétt að baki lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks sem hættir nú lífi og limum við að veita heilbrigðisþjónustu við gríðarlega krefjandi aðstæður.

Læknafélagið leggur áherslu á að siðareglur lækna og mannúðarsjónarmið verði höfð að leiðarljósi og hvetur til að friðsamlegra lausna verði leitað.

Læknafélagið kallar eftir því að:

  • Alþjóðalögum verði fylgt og að hvorki verði heilbrigðisstofnanir nýttar í hernaðarlegum tilgangi, né verði slíkar stofnanir eða sjúkraflutningar gerð að skotmörkum.
  • Heilbrigðisstarfsfólki verði gert kleift að sinna öllum sjúklingum af mannúð og í samræmi við siðareglur sinna stétta, þar með talið kröfuna um hlutleysi heilbrigðisstarfsfólks.
  • Öruggar flutningsleiðir fyrir mannúðaraðstoð verði tryggðar íbúum Gaza.

Læknafélagið vísar í Genfarsáttmálann (1949, 1977 og 1995) og í yfirlýsingu Alþjóðasamtaka lækna frá 2022 um stöðu og vernd heilbrigðisstarfsmanna í vopnuðum átökum og öðrum ofbeldisaðstæðum (e. WMA Declaration on the protection and integrity of health care personnel in armed conflict and other situations of violence).“

Sent: Forsætisráðherra, utanríkisráðherra og fjölmiðlum.