Aðalfundur LÍ heldur áfram

Aðalfundur LÍ 2018 hélt áfram í morgun með málþingi um stefnumótun LÍ í heilbrigðismálum. Eins og fram kom í ávarpi heilbrigðisráðherra Svandísar Svavarsdóttur við setningu aðalfundar LÍ í gær, 8. nóvember, stendur nú yfir í heilbrigðisráðuneytinu vinna að heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Stjórn LÍ ákvað að helga málþing aðalfundarins að þessu sinni stefnumótun LÍ á þessu sviði og fékk Kristján Vigfússon ráðgjafa til liðs við sig við þá vinnu.

Markmið vinnunnar er að setja fram grunnstef í heilbrigðisstefnu LÍ til framtíðar og koma henni á framfæri í samráðsgáttinni þegar kallað verður eftir athugasemdum við drög heilbrigðisráðherra að heilbrigðisstefnu til ársins 2030.

Aðalfundarfulltrúum var skipt í 8 vinnuhópa sem falið var að fjalla um eftirtalin málefni:

  1. Stjórnun og samhæfing í heilbrigðiskerfinu.
  2. Veiting heilbrigðisþjónustu.
  3. Mannauður.
  4. Þátttaka notenda.
  5. Fjármögnun og greiðslukerfi.
  6. Gæði og öryggi þjónustunnar.
  7. Vísindi, menntun og nýsköpun.
  8. Vinnubrögð, samráð og aðferðafræði stefnumótunar.

Búið var að skipta aðalfundarfulltrúum í hópana fyrir aðalfundinn og birta vinnugögn, s.s. drög að heilbrigðisáætlun heilbrigðisráðherra, kynningu á áætluninni á samráðsfundi sem haldinn var fyrir stuttu, skýrslu McKinsey frá árinu 2016, skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2018 og glærur fyrirlesara frá heilbrigðisþinginu sem haldið var 2. nóvember sl.

Vinnuhóparnir unnu samkvæmt fyrirfram ákveðnu skipulagi og kynntu svo niðurstöðu vinnunnar fyrir öllum hópnum undir lok morguns.

Mikill áhugi var á vinnunni og virk þátttaka allra aðalfundarfulltrúa og annarra gesta á fundinum. Mikils er vænst af þessari vinnu málþingsins.

Eftir hádegi halda hefðbundin aðalfundarstörf áfram og byrja með því að vinnuhópar fjalla um fjármál félagsins, tillögur að ályktunum og lagabreytingartillögur.


Hér á síðunni má sjá nokkrar myndir frá hópastarfi morgunsins.