98% ánægð með þjónustu læknastofa


Frétt úr Morgunblaðinu: 
Mikil og nær einróma ánægja er meðal sjúklinga með þá þjónustu sem þeir fengu á læknastofum sjálfstætt starfandi sérfræðilækna á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt nýrri þjónustukönnun sem gerð var fyrir Læknafélag Reykjavíkur. Raunar eru niðurstöðurnar svo afgerandi að 98% svarenda sögðust vera mjög eða frekar ánægð með þá þjónustu sem þeim var veitt í heimsókninni, þar af sögðust 83,7% vera mjög ánægð.

Niðurstöðurnar eru birtar í nýjasta hefti Læknablaðsins. Sex sérfræðilæknar og einn lífverkfræðingur og tölvunarfræðingur unnu að gerð könnunarinnar sem gerð var 2. desember til 9. janúar sl. meðal 1.595 sjúklinga sem komu á fjórar stórar starfsstöðvar sérgreinalækna; Röntgen Domus, Orkuhúsið, Læknastöðina í Glæsibæ og Læknasetrið í Mjódd.

,,Alls töldu 97% sjúklinga mjög eða frekar líklegt að þeir myndu leita aftur á sömu læknastöð […] og 96% mjög eða frekar líklegt að þeir myndu leita aftur til sama læknis […],“ segir í grein um niðurstöðurnar.

Allar stofurnar koma álíka vel út þegar sjúklingar eru spurðir um ánægju með þjónustuna sem þeir fengu í heimsóknum á stöðvarnar og eru svörin á bilinu 4,78 til 4,91 þegar þeim er raðað á fimm stiga ánægjukvarða.

„Það er mjög ánægjulegt að sjá hvað þetta kemur vel út og sjúklingarnir eru ánægðir með þjónustuna. Niðurstöðurnar koma okkur í sjálfu sér ekki á óvart. Við teljum að þetta endurspegli það að landsmenn kunna að meta þessa stofuþjónustu sérfræðilækna,“ segir Þórarinn Guðnason, hjartalæknir á Læknasetrinu í Mjódd og formaður Læknafélags Reykjavíkur. Sú niðurstaða að 97% sögðust myndu leita aftur til sama læknis eða á sömu læknastöð ef á þyrfti að halda sýnir ótvírætt traust sjúklinga að mati hans. ,,Niðurstöðurnar sýna líka traust á þessum valkosti í heilbrigðisþjónustunni sem einkareknu stöðvar læknanna eru,“ segir Þórarinn. 

Sjá frétt