Um vorjafndægur

Ég var mátulega búin að segja ykkur frá því að félagsmenn gætu gengið að því sem vísu frá september til maí að haldinn verði félagsfundur fyrsta miðvikudag hvers mánaðar kl. 16, þegar kemur að fyrstu undantekningunni á þeirri reglu. Fyrsti miðvikudagur í apríl fellur í dymbilviku. Þá eru margir á faraldsfæti og því ákvað stjórnin að færa fundinn um eina viku og verður hann haldinn miðvikudaginn 12. apríl kl. 16. Fyrirlesari verður Katrín Fjeldsted. Þá er eftir einn venjulegur félagsfundur miðvikudaginn 3. maí, og vetrardagskrá lýkur með aðalfundi miðvikudaginn 31. maí. Nokkrir ferðaglaðir öldungar eru farnir að hlakka til skemmtiferðar 9.-11. júní á Kirkjubæjarklaustur, fullbókað er í ferðina. Málþingin tvö sem Öldungadeildin stóð fyrir á nýliðnum Læknadögum tókust mjög vel og er gaman að segja frá því að þau hafa áhrif út fyrir Læknadaga. Gestafyrirlesarinn okkar á málþinginu um menntun lækna í framtíðinni, Parveen Kumar, heimsótti Landspítalann og ræddi við ýmsa. Hún er mikill talsmaður svokallaðs “team-based learning” og nú eru Læknadeildarmenn komnir á stúfana og hafa þegar tekið þátt í námskeiði um þessa kennsluaðferð. Fundarstjórinn á málþinginu um langlífi er að skipuleggja námskeið á framhaldsnámsstigi um öldrun og langlífi og verða fyrirlesarar á málþinginu okkar meðal kennara.

Helga M. Ögmundsdóttir, ritari


Til baka