Nú er komið að því að stjórn undir forystu Óttars Guðmundssonar lætur af störfum. Undangengin fjögur ár hafa verið farsæl og viðburðarík í Öldungadeildinni. Félagsfundir hafa verið haldnir fyrsta miðvikudag hvers mánaðar frá september og fram í maí. Þeir hafa verið vel sóttir, frá 50 og allt upp í nærri 100 manns, félagsmenn og gestir þeirra. Efnið hefur verið mjög fjölbreytt, m.a. úr heimi bókmennta, sagnfræði, lista og læknavísinda. Öldungadeildin lét að sér kveða á Læknadögum með málþingum um fjölbreytt efni, allt frá menntun lækna og alþjóðaheilsu til hinna ýmsu æviskeiða, bernsku og langlífis til dauða. Það kom í hlut þessarar stjórnar að fagna 30 ára afmæli Öldungadeildar haustið 2024. Ferðir félagsins hafa tekist vel, fátt er betur fallið til góðrar samveru en að ferðast saman og upplifa eitthvað skemmtilegt. Innanlands fórum við um Skagafjörðinn, Borgarfjörðinn, Síðuna og loks Strandir og Djúp. Í fyrri utanlandsferðinni lá leiðin á slóðir Semmelweiss og Freuds í Budapest og Vínarborg og í þeirri síðari fylgdum við Kolumkilla, norrænum mönnum og Skotum um Suðureyjar, hálönd Skotlands og Edinborg. Það er því margs að minnast og stjórnin afhendir næstu stjórn kyndilinn með tilhlökkun til góðra viðburða laus við ábyrgðina.
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Afgreiðslutími
Mánudaga til fimmtudaga 9-16
Föstudaga 9-13