Lög Félags Ísl. barnalækna

1. grein. 

Félagið heitir Félag íslenskra barnalækna (The Icelandic Pediatric Society). Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

 

2. grein. 

Markmið félagsins er að efla þróun barnalækninga hér á landi og stuðla að kynningu og samstarfi við hliðstæð félög í öðrum löndum. Félagið skal leitast við að vera málsvari íslenskra barna, bæði heilbrigðra og sjúkra, á sem víðustum grundvelli. Félaginu ber að standa vörð um hagsmunamál félagsmanna í samvinnu við stjórnir annarra íslenskra læknafélaga og Læknafélag Íslands.

 

3. grein

Félagar geta þeir orðið sem öðlast hafa sérfræðiviðurkenningu í barnalækningum á Íslandi. Ennfremur má veita aðild öðrum læknum, er starfa að sérgreininni, enda hafi þeir hlotið tilsvarandi menntun og samþykki félagsfundar. Skulu þeir síðastnefndu teljast aukameðlimir. Munu settar nánari reglur þar um.

 

4. grein. 

Stjórn félagsins skipa þrír menn, formaður, ritari og gjaldkeri, auk þess skal kjósa einn varamann. Stjórn skal kjósa á aðalfundi til þriggja ára í senn. Ritari skal gegna störfum formanns í hans forföllum þar til nýr formaður er kjörinn á næsta aðalfundi. Varamaður skal fá fundarboð á stjórnarfundi og fundargerðir.

 

5. grein

Aðalfund skal halda fyrir lok maí ár hvert. Til hans skal boða skriflega með viku fyrirvara. Aðalfundur er löglegur, ef löglega er til hans boðað. Í atkvæðagreiðslu ræður einfaldur meirihluti atkvæða. Á aðalfundi er skýrsla stjórnar fyrir undangengið starfsár kynnt og rædd, gjaldkeri leggur fram reikninga félagsins, ákvörðun tekin um félagsgjöld næsta árs, stjórnarmenn kjörnir ef við á (sjá 4. grein), og önnur mál tekin fyrir. Tillögur til lagabreytinga skulu hafa borist stjórn félagsins fyrir 15. febrúar og skal stjórnin senda hana til félagsmanna með aðalfundarboði. Heiðursfélagar og þeir félagar sem náð hafa 70 ára aldri eða eru búsettir erlendis greiði ekki árgjald. Reikningsár félagsins er almanaksárið.

 

6. grein 

Fundir skulu haldnir svo oft, sem stjórn þykir ástæða til. Dagskrá skal tilkynna í fundarboði.

 

7. grein. 

Félagið getur kjörið heiðursfélaga innlenda eða erlenda, er unnið hafa sér orðstír í sérgreininni eða stuðlað að framgangi hennar. Sérhver félagi getur lagt fram tillögu um heiðursfélaga í samráði við stjórn félagsins.

 

8. grein. 

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og ræður einfaldur meirihluti atkvæða.

 

 

 

 


Til baka