Starfsreglur Læknaráðs Landspítala

Samþykktar á aðalfundi
læknaráðs Landspítala
15. janúar 2021.

Starfsreglur Læknaráðs Landspítala
I. KAFLI − Skipan og hlutverk læknaráðs

1. grein. Skipan læknaráðs
Við Landspítala skal starfa læknaráð. Í læknaráðinu geta átt sæti allir læknar sjúkrahússins sem ráðnir hafa verið til starfa til eins árs eða lengur. Rétt til fundasetu með tillögurétti, en án atkvæðisréttar, eiga aðrir læknar Landspítalans. Formaður læknaráðsins sker úr þegar vafi leikur á um tillögu- og atkvæðisrétt eða rétt til fundarsetu.

2. grein. Hlutverk og starfshættir læknaráðs
Hlutverk Læknaráðs er að:
• Veita stjórnendum Landspítalans aðhald og ráðgjöf um læknisfræðileg atriði í rekstri sjúkrahússins.
• Fjalla um þjónustu við sjúklinga, skipulag, stjórnun og rekstur, stefnumótun, þróun, vísindastarf, samstarf og samhæfingu starfskrafta auk menntunar lækna, læknanema og annars starfsliðs.
• Senda heilbrigðisyfirvöldum ábendingar um rekstur og fyrirkomulag heilbrigðismála á Íslandi.

Starf Læknaráðs og nefnda þess miðar að því að auka gæði þeirrar læknisþjónustu sem veitt er á
Landspítalanum, þannig að lækningar séu á hverjum tíma í samræmi við lög, bestu þekkingu,
viðurkennda reynslu og gæðastaðla.

Læknaráð getur hvenær sem er tekið mál til umræðu og meðferðar að eigin frumkvæði auk þeirra
mála sem stjórnendur spítalans eða heilbrigðismála kunna að leggja fyrir ráðið.

II. KAFLI − Stjórn læknaráðs

3. grein. Skipan stjórnar og kosning
Stjórn læknaráðs skal valin á aðalfundi sem haldinn er árlega á vormisseri. Stjórnin skal kosin til tveggja ára í senn. Endurkjósa má í sama stjórnarstarf einu sinni. Stjórn læknaráðs samanstendur af tíu læknum frá mismunandi starfseiningum spítalans og skulu tveir þeirra vera úr hópi almennra
lækna eða sérnámslækna.

Í stjórn sitja formaður, varaformaður og ritari auk meðstjórnenda. Formaður læknaráðs er kosinn sérstakri kosningu á aðalfundi læknaráðs. Stjórn læknaráðs skiptir að öðru leyti sjálf með sér verkum.

4. grein. Hlutverk stjórnar læknaráðs
Stjórn læknaráðs:
1. Fer með umboð læknaráðs og framfylgir hlutverki þess.
2. Er málsvari læknaráðs spítalans og sjúklinga þeirra út á við og inn á við í öllum læknisfræðilegum efnum.
3. Skal taka afstöðu til þeirra mála sem beint er til hennar frá stjórnendum spítalans eða meðlimum læknaráðs.
4. Skal fylgjast með læknaþörf Landspítalans og starfsskilyrðum lækna.
5. Hefur aðkomu að ráðningum lækna í störf á Landspítalanum eins og yfirstjórn óskar eftir.

Læknaráð fylgist með að hæfniskröfum og að jafnræðis sé gætt við ráðningar lækna sem og aðar ákvarðanir um stjórn og rekstur spítalans. Læknaráð veitir umsögn um hæfi sérfræðilækna og eftir atvikum stjórnunarstöður sem snerta læknisþjónustu, til að tryggja gæði ráðningaferla, enda sé eftir því óskað.
5. grein. Fundir stjórnar læknaráðs

Stjórn læknaráðs fundar reglulega. Formaður boðar til funda, stjórnar og stýrir þeim. 
Stjórnarfundir eru ályktunarhæfir ef helmingur stjórnarmanna eða fleiri sitja fundinn. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður við atkvæðagreiðslur og falli atkvæði jöfn, ræður atkvæði formanns stjórnar læknaráðs úrslitum. Stjórn læknaráðs getur kallað á sinn fund lækna eða aðra sem búa yfir viðeigandi sérþekkingu á þeim málum sem hún fjallar um hverju sinni. Samþykktar fundargerðir stjórnar læknaráðs skulu birtar á vefsíðu læknaráðs.

III. KAFLI − Nefndir læknaráðs

6. grein. Skipan nefnda
Læknaráð getur skipað nefndir til að fjalla um málefni tengd Landspítalanum, til dæmis fræðslunefnd, stöðunefnd og valnefnd.
Í hverri nefnd sitja formaður og fjórir læknar af mismunandi starfseiningum á spítalanum. Stjórn læknaráðs getur skipað sérstakar nefndir eða starfshópa til að fjalla um einstök mál.

7. grein. Störf nefnda
Hverri nefnd, sem stjórn Læknaráðs ákveður að skipa, eru settar starfsreglur, sem samþykktar eru af stjórn læknaráðs. Formenn nefnda skulu boða fundi þeirra og stýra fundum en að öðru leyti skipta nefndarmenn með sér verkum. Allar nefndir á vegum læknaráðs starfa í umboði stjórnar ráðsins og getur hún skotið til nefnda þeim málum, sem henni þykir henta hverju sinni. Nefndir skulu skrá fundargerðir og gefa stjórn læknaráðs skýrslu um störf sín minnst hálfum mánuði fyrir aðalfund. Formenn nefnda skulu að jafnaði boðaðir á fund stjórnar læknaráðs árlega til að gera grein fyrir störfum nefndanna.

IV. KAFLI − Aðalfundur læknaráðs

8. grein. Aðalfundur
Aðalfund skal halda á vormisseri ár hvert. Til hans skal boða með rafrænum hætti eða skriflega með minnst tveggja vikna fyrirvara. Hann er löglegur ef löglega er til hans boðað.
Kynna skal fyrirhugaðar kosningar með fundarboði aðalfundar. Meðlimum læknaráðs er heimilt að tilnefna eða bjóða sig fram til stjórnarsetu og skulu framboð hafa borist eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund. Kynna skal með rafrænum hætti eða skriflegra hverjir hafa gefið kost á sér til stjórnarstarfa þegar framboðsfrestur rennur út.

9. grein. Dagskrá aðalfundar
1. Skýrsla stjórnar.
2. Breytingar á starfsreglum.
3. Kosning stjórnar.
4. Önnur mál.
Allar kosningar skulu vera rafrænar, skriflegar eða með þeim hætti sem stjórn læknaráðs ákvarðar hverju sinni og eru þeir rétt kjörnir sem fá flest atkvæði. Falli atkvæði jöfn, ræður hlutkesti.

V. KAFLI − Fundir læknaráðs

10. grein. Almennir læknaráðsfundir
Læknaráð heldur almenna fundi reglulega og að minnsta kosti einu sinni á misseri. Almenna læknaráðsfundi skal boða með rafrænum hætti eða skriflega með minnst viku fyrirvara. Dagskrá skal fylgja fundarboði.
Almennir fundir læknaráðs eru fyrir meðlimi þess eingöngu. Stjórn læknaráðs getur þó ákveðið að hafa almenna fundi opna. Við afgreiðslu mála ræður einfaldur meirihluti atkvæða og er samþykkt lögmæt, sé löglega til fundarins boðað.
Vantraust á stjórn læknaráðs skal taka til umræðu ef 50 læknar, sem í ráðinu eiga sæti, óska þess eða fjórir stjórnarmenn. Vantrauststillögu skal leggja fram skriflega og senda út með fundarboði. 
Ef tveir þriðju fundarmanna samþykkja vantraust, skal kjósa stjórn til bráðabirgða á fundinum og skal hún boða til aðalfundar svo skjótt sem auðið verður.

VI. KAFLI − Breytingar á starfsreglum

11. grein. Breytingar á starfsreglum
Stjórn læknaráðs eða einstakir meðlimir ráðsins geta gert tillögur til breytinga á starfsreglum. Hafi þær borist fyrir boðun aðalfundar ber stjórn ráðsins að senda þær út með aðalfundarboði. Allar slíkar tillögur skulu vera með skriflegum hætti og hafa borist stjórn læknaráðs eigi síður en einni viku fyrir aðalfund. Tilögur til breytinga sem berast innan þeirra tímamarka skulu tafarlaust sendar út til kynningar.
Tillögur til breytinga á starfsreglum skulu ræddar og bornar undir atkvæði á aðalfundi. Til samþykktar þarf tvo þriðju hluta greiddra atkvæða.
Ákvæði til bráðabirgða

Fyrsta stjórn læknaráðs samkvæmt þessum starfsreglum skal kosin á aukaaðalfundi læknaráðs í byrjun árs 2021. Starfsreglur þessar taka gildi að loknum aukaaðalfundi læknaráðs Landspítala í janúar 2021.


Til baka