Lög

Lög Félags um innkirtlafræði

lögð fram og samþykkt á aðalfundi 18. janúar 2008 með samþykktum

breytingartillögum á aðalfundi 6. febrúar 2009

 1. grein

Félagið heitir ,,Félag um innkirtlafræði” (FUI) (The Icelandic Endocrine Society). Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. grein

Tilgangur félagsins er að:

1. Efla innkirtla‐ og efnaskiptalækningar á Íslandi með því að:

a. Stuðla að bættri greiningu og meðferð á innkirtla‐ og efnaskiptasjúkdómum.
b. Efla þekkingu og rannsóknir á sviði innkirtla‐ og efnaskiptafræða.
c.  Halda uppi samskiptum og samstarfi við hliðstæð félög erlendis.

2. Standa vörð um hagsmunamál félagsmanna í samvinnu við stjórnir annarra íslenskra læknafélaga og Læknafélag Íslands.

a. Félagið sér um samskipti og samninga við Tryggingastofnun Ríkisins og aðra sambærilega aðila um gjaldskrármál osfrv. fyrir félagsmenn hverra mál eru ekki þegar í höndum annarra fagfélaga (dæmi: barnalæknar).

3. grein

Félagar geta þeir læknar orðið, sem starfa á Íslandi og öðlast hafa sérfræðiviðurkenningu í innkirtla‐ og efnaskiptasjúkdómum hérlendis. Ennfremur má veita aðild öðrum sem hafa innkirtlafræði sem starf eða áhugasvið, enda hafi þeir hlotið samþykki félagsfundar. Skulu þeir síðastnefndu teljast aukafélagar. Stjórn félagsins skal halda skrá yfir virka félaga og aukafélaga. Greiði félagar eða aukafélagar ekki félagsgjöld 2 ár í röð fellur félagsaðild þeirra sjálfkrafa úr gildi.

Aukafélagar hafa ekki atkvæðisrétt um lagabreytingar eða hagsmunamál félaga sbr. grein 2.2.a

4. grein

Stjórn félagsins skipa þrír menn, formaður, ritari og gjaldkeri sem skipta með sér verkum. Stjórn skal kjósa á aðalfundi til þriggja ára í senn.

Aðalfund  skal  halda  á  fyrsta  ársfjórðingi  ár  hvert.  Til  hans  skal  boða  skriflega  með  15  daga  fyrirvara. Aðalfundur er löglegur, ef rétt er til hans boðað. Í atkvæðagreiðslu á aðalfundi  ræður einfaldur meirihluti atkvæða.  Á aðalfundi er  skýrsla  stjórnar  fyrir undangengið  starfsár  kynnt  og  rædd,  gjaldkeri  leggur  fram  reikninga  félagsins,  ákvörðun  tekin  um félagsgjöld næsta árs, stjórnarmenn kjörnir ef við á, og önnur mál tekin fyrir. Reikningsár félagsins er frá 1. janúar til 31. desember.

5. grein

Fræðslu‐ og aðra fundi skal halda þegar tilefni gefst og eftir nánari ákvörðun stjórnar. Dagskrá skal tilkynna í fundarboði.

6. grein

Félagið  getur  á  aðalfundi,  kjörið  heiðursfélaga  innlenda  eða  erlenda,  er  unnið  hafa  sér  orðstír  á  sviði innkirtlafræða  eða  stuðlað  að  framgangi  þeirra  með  einum  eða  öðrum  hætti.  Sérhver  félagi  eða aukameðlimur getur lagt fram tillögur um heiðursfélaga í samráði við stjórn félagsins.

7. grein

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og ræður einfaldur meirihluti atkvæða. Tillögur til lagabreytinga skulu hafa borist stjórn félagsins skriflega fyrir aðalfund. 
 

8. grein

Ákvörðun um slit Félags um innkirtlafræði má eingöngu taka á löglegum aðalfundi. Tillaga þess efnis skal lögð  fram  skriflega  2  vikum  fyrir  aðalfund.  Til  samþykktar  þarf  einfaldan  meirihluta  og  renna  eignir félagsins þá til Félags íslenskra lyflækna og Félags íslenskra barnalækna í hlutfalli við fjölda aðalfélaga sem tilheyra hvoru félagi um sig.

Sjá lög félagsins hér: Lög Félags um innkirtlafræði


Til baka