COVID-19 og sykursýki hjá fullorðnum

COVID-19 OG SYKURSÝKI. 

Sykursýki hefur letjandi áhrif á ónæmiskerfi fólks sem veldur því að fólk er lengur að ráða niðurlögum sýkinga og er lengur að jafna sig. Það er líka mögulegt að veiran lifi lengur í umhverfi þar sem sykurinn er hár. Þegar fólk með sykursýki fær veirusýkingu þá getur orðið erfiðara að meðhöndla veikindin vegna hækkunar á blóðsykri. Það getur líka flækt málið ef viðkomandi hefur þekkta fylgikvilla af sinni sykursýki (t.d.hjartasjúkdóm,skerta nýrnastarfsemi, háþrýsting eða annað).

Þess vegna hefur fólk með sykursýki verið skilgreint sem sérstakur áhættuhópur vegna COVID-19 sýkinga.

Hvað er hægt að gera til að milda áhrif sýkingar?

Í fyrsta lagi er mikilvægt að forðast sýkingu með öllum ráðum og fara enn varlegar en aðrir: Það gildir eins og fyrir aðra að: þvo hendur oft og vel; forðast að snerta andlitið áður en maður þvær og þurrkar sér um hendurna;, sótthreinsa yfirborð sem maður snertir oft; ekki deila með öðrum mat, gleraugum, handklæðum, áhöldum ofl.; hósta í olnbogabótina eða í klút; forðast alla sem eru með einkenni um öndunarfærasýkingu; forðast fjölmenna staði (ferðalög, tónleika, bíó, almenningssamgöngur) og loks ef þú ert lasinn...vertu þá heima!

EF ÞÚ ERT MEÐ SYKURSÝKI:

-undirbúðu þig vel ef til þess kæmi að þú þyrftir að fara í sóttkví eða einangrun.

-passaðu að eiga nægar birgðar af insúlini og öðrum sykursýkilyfjum. Eigðu einnig nóg af strimlum til mælinga, blóðhnífa og nálar á penna. Hugsaðu hvað þú þarft að eiga mikið fyrir næstu 4 vikur

-passaðu að eiga nægan mat, einkum það sem þú notar venjulega til að leiðrétta sykurföll. Passaðu að hafa þrúgusykur, sykurgel og Glucagen hypostop sprautur til ef blóðsykurinn skyldi lækka skyndilega. Það getur t.d. gerst ef maður verður lystarlaus vegna veikinda

-sýking af hvaða tagi sem er eykur vökvaþörf þína, passaður að drekka nóg af vatni og öðrum vökva

-vertu dugleg(ur) að mæla blóðsykurinn ef þú ert lasinn og sérstaklega ef þú færð háan hita. Þá geturðu þurft að mæla þig á 2-3ja tíma frest og gefa aukalega hraðvirkt insulin til að halda blóðsykrinum innan marka. Gefðu alltaf grunninsúlinið og mundu að stundum þarf líka að auka það

-fáðu leiðbeiningar hjá lækni hvort þú þurfir að stöðva eða breyta skömmtum af sykursýkitöflunum þínum (þetta á t.d. við um jardiance, forxiga, glimeryl og metformin)

-ef þú ert með tegund 1 sykursýki, þá eykst hættan á ketónblóðsýringi (DKA, diabetic ketoacidosis) í bráðum veikindum. Rifjaðu upp leiðbeiningar sem þú hefur fengið um viðbrögð við veikindum. Eigðu þvagstrimla til að stixa þvagið fyrir ketónum og hafðu samband við heilbrigðisstarfsfólk ef þig grunar ketonsýring.

-ef þú færð flensulík einkenni (háan hita, hósta, öndunarerfiðleika), þá er mjög mikilvægt að þú hafir samband við lækni. Hafðu tilbúin símanúmer hjá þínum lækni og/eða hjúkrunarfræðingi eða vertu með rafrænan aðgang að Heilsuveru

-ef þú býrð ein/einn vertu þá viss um að einhver sem þú treystir viti að þú ert með sykursýki og geti aðstoðað þig ef þú veikist og þarft á hjálp að halda

 

Gangi þér vel!

 


Til baka