Lög Félags ísl. þvagfæraskurðlækna

1. grein
Heiti félagsins

Félagið heitir; Félag íslenskra þvagfæraskurðlækna. Félagssvæði þess er landið allt. Lögheimili þess og varnarþing er í Reykjavík.


2. grein
Tilgangur og markmið
Tilgangur félagsins er:

  1. Að stuðla að samheldni, félagslegri og faglegri samvinnu félagsmanna og almennt meðal lækna
  2. Að gæta hagsmuna félagsmanna, m.a. með því að koma fram fyrir þeirra hönd við gerð samninga við samninganefnd HTR svo og aðra hugsanlega aðila vegna samnings um sérfræðihjálp utan sjúkrahúsa.

3. grein
Félagsmenn, innganga

Félagar geta þeir orðið sem hlotið hafa sérfræðiviðurkenningu á Íslandi í þvagfæraskurðlækningum. Sá sem óskar að gerast félagsmaður kemur undirritaðri inntökubeiðni sinni til stjórnar félagsins sem heldur skrá um félagsmenn. Komi upp vafi um hvort umsækjandi uppfyllir inntökuskilyrði skal stjórn félagsins skera úr. Uni umsækjandi ekki þeim úrskurði skal honum heimilt að leggja málið fyrir félagsfund sem þá sker endanlega úr um málið. Í inntökubeiðni skal koma fram að viðkomandi félagsmaður skuldbindi sig til að hlíta lögum og samþykktum félagsins í hvívetna og að hann feli félaginu umboð til kjarasamningsgerðar fyrir sína hönd við Samninganefnd heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytisins vegna samnings um sérfræðilæknishjálp utan sjúkrahúsa og að aðrir skuli ekki fara með slíkt umboð meðan viðkomandi á aðild að félaginu. Félagsfundur getur vísað félaga úr félaginu, ef félagsstjórn ber fram rökstudda tillögu þar um og þrír fjórðu fundarmanna greiða tillögunni atkvæði.

4. grein
Félagsgjöld

Félagsmenn greiða félagsgjald sem rennur í félagssjóð og er ætlað að standa straum af rekstri félagsins. Félagsgjald er ákveðið á aðalfundi. Félagsmaður sem skuldar félagsgjald fyrir eitt ár eða meira glatar öllum félagsréttindum þar til skuldin er að fullu greidd.

5. grein
Kosningaréttur og kjörgengi

Fullgildir félagsmenn njóta kosningaréttar og kjörgengis í embætti félagsins. Stjórn félagsins sker úr um ágreining, sem upp kann að koma, nema á félagsfundi sé, þá skal málið lagt fyrir fundinn.

6. grein
Úrsagnir úr félaginu

Úrsögn skal vera skrifleg. Hún skal afhent formanni félagsins eða stjórn. Enginn getur sagt sig úr félaginu eftir að atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun hefur verið auglýst eða ákvörðun um vinnustöðvun hefur verið tekin af félaginu og þar til vinnustöðvuninni hefur verið formlega aflýst.

7. grein
Kjör heiðursfélaga

Stjórn félagsins getur valið heiðursfélaga úr hópi lækna, vísindamanna eða velunnara félagsins. Val heiðursfélaga skal vera einróma ákvörðun og skal tilkynna hana á aðalfundi.

8. grein
Aðalfundur

Aðalfundur skal haldinn fyrir lok maí ár hvert og fer hann með æðsta vald í málefnum félagsins. Hann er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Aðalfund skal boða með bréfi og/eða á ræfrænan hátt til félagsmanna með minnst hálfs mánaðar fyrirvara.

9. grein

Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:

  1. Skýrsla stjórnar félagsins fyrir liðið starfsár
  2. Endurskoðaðir reikningar félagsins fyrir liðið reikningsár séu lagðir fram.
  3. Stjórnarkjör það ár sem það fer fram. Kjósa skal formann sérstaklega og síðan ritara og gjaldkera. Hlutkesti ræður, ef atkvæði eru jöfn. Tveir varamenn eru kosnir í einu lagi og ræður afl atkvæða, en hlutkesti, ef atkvæði eru jöfn.
  4. Kosning formanns samninganefndar og tveggja samninganefndarmanna.
  5. Kosnir tveir skoðunarmenn reikninga félagsins.
  6. Fjárhagsáætlun og ákvörðun árgjalds félagsmanna fyrir næsta ár.
  7. Lagabreytingar, ef fram koma tillögur um þær.
  8. Önnur mál, sem löglega eru fram borin.

10. grein
Félagsfundir

Félagsfundir skulu haldnir þegar félagsstjórn álítur þess þörf eða minnst 5 fullgildir félagsmenn óska þess við stjórn félagsins og tilgreina fundarefni. Fundir skulu boðaðir með minnst tveggja sólarhringa fyrirvara. Þó má í sambandi við vinnudeilur boða fund með skemmri fyrirvara. Fundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Fundum félagsins skal stjórnað eftir almennum fundarsköpum. Komi upp ágreiningsatriði um fundarsköp úrskurðar fundarstjóri hverju sinni með rökstuddum úrskurði. Óski einstakur félagsmaður eftir skriflegri atkvæðagreiðslu á félagsfundi er fundarstjóra skylt að verða við þeirri ósk. Heimilt er að boða fundi bréflega eða á rafrænan hátt.

11. grein
Skipan stjórnar

Aðalstjórn félagsins skipa 3 menn: Formaður, ritari og gjaldkeri. Skulu þeir kosnir til tveggja ára í senn. Kjósa skal tvo varamenn í stjórn sbr. 9. gr. til 2ja ára í senn.

12. grein
Starf stjórnar

Formaður félagsins kveður til stjórnarfunda og stjórnar þeim. Formanni er skylt að halda stjórnarfund óski a.m.k. 2 stjórnarmenn eftir því. Hann hefur eftirlit með starfsemi félagsins og eftirlit með því að lögum þess og samþykktum sé fylgt í öllum greinum. Varastjórnarmenn taka sæti í stjórn í forföllum aðalmanna og tilnefnir aðalmaður varamann í sinn stað. Ritari gegnir skyldum formanns í forföllum hans.

13. grein
Verksvið stjórnar og nefndir

Stjórnin hefur á hendi yfirstjórn allra félagsmála milli félagsfunda. Stjórnin boðar til félagsfunda. Stjórnin ber sameiginlega ábyrgð á eigum félagsins. Hún kemur fram fyrir hönd félagsmanna, veitir umsagnir og miðlar upplýsingum til félagsmanna og annarra um það er varðar sérgrein þeirra og hlutverk hennar. Stjórnin leitast við að leysa úr ágreiningsmálum milli félagsmanna og varðandi félagsmenn. Fundir stjórnar eru lögmætir, þegar meirihluti er mættur á fundi. Ritari ber ábyrgð á því að gerðarbækur félagsins séu haldnar og færðar í þær allar fundargerðir og lagabreytingar. Hann undirritar gerðarbækur félagsins ásamt formanni. Heimilt er að hljóðrita fundi félagsins. Gjaldkeri hefur á hendi eftirlit með fjárreiðum félagsins og bókfærslu eftir nánari ákvörðun stjórnarinnar.

14. grein
Samninganefnd

Samninganefnd skal vera starfandi í félaginu. Hlutverk hennar er að annast samningsgerð fyrir hönd félagsins (sbr. 2.gr). Nefndin skal kjörin á aðalfundi til tveggja ára og í henni skulu eiga sæti 3 menn. Formaður samninganendar er sérstaklega kjörinn á aðalfundi félagsins á 2ja ára fresti.

Stjórn félagsins og samninganefnd ákveða hvort unnið verði með Læknafélagi Reykjavíkur að gerð samninga eða hvort félagið fari alfarið með þau mál.

15. grein
Fjármál

Reikningsár félagsins er almanaksárið. Tveir félagskjörnir skoðunarmenn skulu yfirfara reikninga félagsins fyrir liðið reikningsár og gera athugasemdir sínar við þá. Reikningar félagsins skulu liggja frammi, til skoðunar fyrir félagsmenn, 7 dögum fyrir aðalfund. Kjörnir skoðunarmenn skulu rannsaka reikninga félagsins fyrir liðið ár.

16. grein
Lagabreytingar

Lögum þessum verður ekki breytt nema á lögmætum aðalfundi, enda greiði 2/3 fundarmanna atkvæði með breytingunni. Tillögur að lagabreytingum þarf að leggja fram á félagsfundi í febrúar og skulu þær kynntar í fundarboði aðalfundar.

Þannig samþykkt á aðalfundi Félags íslenskra þvagfæraskurðlækna

 

Reykjavík 5 mars 2004

 


Til baka