Lög FÍH

Samþykkt á aðalfundi 2003.
Breytt á aðalfundi 2017.
Lög 
Félags íslenskra heimilislækna

1. gr.
Nafn félagsins er Félag íslenskra heimilislækna, skammstafað FÍH. Lögheimili þess og varnarþing er í Kópavogi. Félagið er eitt fjögurra aðildarfélaga Læknafélags Íslands.

2. gr.
Félagið beitir sér fyrir því að heimilislækningar á Íslandi séu stundaðar samkvæmt ítrustu kröfum, sem gerðar eru til heimilislækna á hverjum tíma. Félagið skal vinna að kjaramálum heimilislækna en þó er samningagerð um kjaramál í höndum Læknafélags Íslands nema annað sé ákveðið af stjórn FÍH.

3. gr. 
Félagar.
Félagar geta allir þeir læknar orðið, sem hafa heimilislækningar að aðalstarfi. Greiði gjaldskyldur félagi ekki árgjald sitt er stjórn FÍH heimilt að svipta hann félagsréttindum uns hann hefur greitt gjaldið enda hafi hann verið aðvaraður með minnst 3ja mánaða fyrirvara. 
Aukafélagar geta þeir læknar orðið:
a) sem ekki hafa heimilislækningar að aðalstarfi
b) eru við störf erlendis 
c) eru í námi í öðru en heimilislækningum.
d) félagar í FÍH sem eru ekki í Læknafélagi Íslands.
e) aldursfélagar sem þess óska og hafa náð 70 ára aldri.
Aðild samkvæmt 2. mgr. fylgir ekki kjörgengi til stjórnar eða kosningaréttur. 
Heiðursfélagar, valdir skv. meirihlutaákvörðun aðalfundar.

4. gr.
Stjórn.
Stjórn skipa níu menn, sem kosnir eru á aðalfundi. Formann skal kjósa sérstaklega til tveggja ára í senn. Formaður félagsins á einnig sæti í stjórn Læknafélags Íslands samkvæmt lögum þess félags til tveggja ára í senn. Kjósa skal aðra stjórnarmenn á þann hátt að fjórir eru kosnir sitt hvort árið og er kjörtímabil þeirra tvö ár. Falli atkvæði að jöfnu við kosningar skal fara eftir 9. gr. laga Læknafélags Íslands. Kosning skal vera skrifleg ef fundarmenn æskja. Stjórn skiptir með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund og velur úr sínum hópi varaformann, ritara, gjaldkera og 5 meðstjórnendur og úr hópi meðstjórnenda umsjónarmann erlendra samskipta og ritstjóra heimasíðu félagsins. Stjórnarfundi skal halda eigi sjaldnar en annan hvern mánuð og boðar formaður stjórnarfundi. Skylt er að halda stjórnarfund ef tveir stjórnarmenn óska þess og er stjórnarfundur ályktunarfær ef meirihluti stjórnar situr fundinn.

5.gr.
Aðalfundur, aukaaðalfundur.
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda árlega, að hausti og eigi síðar en í lok október. Boða skal til aðalfundar bréflega með minnst tveggja vikna fyrirvara. Stjórnin getur boðað til aukaaðalfundar ef hún telur þess þörf. Óski a.m.k. 15% félagsmanna eftir aukaðalfundi ber stjórn FÍH að verða við því. Tillögur til lagabreytinga og ályktana skulu sendar stjórn FÍH a.m.k. 4 vikum fyrir aðalfund. Innsendar tillögur ásamt ársskýrslu FÍH skal birta á heimasíðu FÍH fyrir fundinn verði því við komið. Ályktunartillögur um þau málefni, sem eru á dagskrá fundarins, mega koma fram á fundinum sjálfum. Aðrar tillögur til ályktana skal bera fram þegar áður innsendar tillögur eru lagðar fram á fundinum. Verða þær því aðeins teknar á dagskrá að a.m.k. helmingur fulltrúa samþykki. 

6. gr.
Verkefni aðalfundar.
Aðalfundur er löglegur, sé löglega til hans boðað. Öllum læknum í FÍH er frjálst að sitja aðalfund félagsins  með málfrelsi og tillögurétt en atkvæðisrétt hafa aðeins skuldlausir félagar og félagar samkvæmt 1. og 3. mgr. 3. gr.
     Á aðalfundi skal:
     Flytja skýrslu stjórnar.
     Flytja skýrslur annarra nefnda, ef þær koma ekki fram í skýrslu stjórnar.
     Leggja fram endurskoðaða reikninga félagsins til afgreiðslu.
     Ákveða árgjald næsta starfsárs.
     Ræða og afgreiða tillögur um lagabreytingar.
     Ræða og afgreiða tillögur um breytingar á staðli félagsins fyrir starfsemi og starfsaðstöðu heimilislækna.
     Kjósa í laus stjórnarsæti.
     Kjósa endurskoðendur reikninga félagsins.
     Kosning annars tveggja fulltrúa félagsins í stjórn Læknafélags Íslands til tveggja ára.
     Ræða önnur mál.

7. gr.
Félagsfundir.
Félags- og fræðslufundir skulu haldnir eftir þörfum, skv. ákvörðun stjórnar og nefnda. Fimmti hluti félagsmanna getur óskað eftir félagsfundi. Til félagsfunda skal boða skriflega með einnar viku fyrirvara. 

8. gr.
Starfshópar og nefndir.
Stjórn FÍH skipar í eftirtaldar fjóra starfshópa til eins árs í senn, þar sem annars er ekki getið og setur hún starfshópum erindisbréf. Hóparnir velja sér sjálfir formann og geta kallað til fleiri fulltrúa. Hver starfshópur skal halda gerðabók og skila skýrslu á aðalfundi. Formaður FÍH getur tekið þátt í störfum allra starfshópa eftir atvikum. Hægt er að skipa aðra starfshópa og mega þeir sitja fram til næsta aðalfundar og lengur ef aðalfundur framlengir umboð þeirra.
Fræðslunefnd. Hún sjái um fræðslu og viðhaldsmenntun í heimilislæknisfræði. Í nefndinni eiga sæti þrír menn.
Stjórn Vísindasjóðs FÍH. Í stjórn Vísindasjóðs sitja formaður FÍH, fulltrúi kennara í heimilislækningum og formaður gæðaþróunarnefndar FÍH. Stjórnin sjái um eflingu vísindastarfs í heimilislækningum og annast Vísindasjóð FÍH sem gjaldkeri FÍH sér um reikningshald fyrir. Stjórnin setur lög og reglur um sjóðinn sem staðfest er af aðalfundi FÍH. 
Gæðaþróunarnefnd. Hún skipuleggur og vinnur að stefnumótun í gæðaþróun í heimilislækningum. Í nefndinni eiga sæti þrír menn.
Kjararáð FÍH. Það fylgist með kjörum heimilislækna og hefur nána samvinnu við LÍ og samninganefndir þess um kjaramál heimilislækna. 

9 gr.
Starfsfólk.
Stjórn félagsins getur ráðið starfsfólk til að sinna daglegum rekstri félagsins, framkvæma ályktanir stjórnar, vinna að sérstökum verkefnum eða stuðla að markmiðum félagsins á annan hátt.

10. gr.
Um fjármál félagsins.
Aðaltekjur félagsins til að standa straum af rekstrarkostnaði eru árleg félagsgjöld. Upphæð árgjalda skal ákveðin á aðalfundi. Aukafélagar greiða árgjald skv. ákvörðun stjórnar. Gjalddagi er 1. nóvember ár hvert. Gjaldkeri skal halda eignaskrá yfir muni félagsins. 

11. gr.
Reikningar.
Reikningsár félagsins er miðað við 1. júlí. Á aðalfundi skulu kosnir tveir skoðunarmenn reikninga úr röðum félagsmanna. Skulu þeir yfirfara bókhald félagsins fyrir aðalfund og gera athugasemdir við færslur eða ráðstöfun fjár, ef þeim þykir ástæða til. Kalla má til löggiltan endurskoðanda til að yfirfara reikninga félagsins. Hinir endurskoðuðu reikningar skulu liggja frammi hjá gjaldkera í tvær vikur fyrir aðalfund. 

12. gr.
Heimasíða FÍH.
FÍH heldur úti Heimasíðu FÍH sem er eign FÍH og einungis félagar samkvæmt 3. gr. hafa aðgang að heimasíðunni. Stjórnin skipar ritstjóra heimasíðu úr stjórn FÍH og er hann ábyrgðarmaður síðunnar. Stjórn er heimilt að ákveða að a) þeir er vinna tiltekin verkefni fyrir félagið hafi tímabundinn aðgang að heimasíðunni og b) takmarkaður aðgangur að heimasíðunni  verði opnaður fyrir aðra starfandi heimilislækna en félagsmenn ef sérstaklega stendur á vegna réttindamála eða kjarabaráttu heimilislækna. 

13. gr.
Félagsslit.
Til að slíta félaginu þarf samþykki tveggja þriðju hluta atkvæðisbærra fundarmanna á aðalfundi. Samþykki aðalfundur félagsslit, skal halda framhaldsaðalfund innan eins mánaðar frá aðalfundi til að staðfesta félagsslitin, og ræður þá einfaldur meirihluti. Boða skal til framhaldsaðalfundar skriflega með tveggja vikna fyrirvara, og skal geta sérstaklega um félagsslit í fundarboði. Í stað framhaldsaðalfundar er heimilt að efna til skriflegrar atkvæðagreiðslu meðal allra atkvæðisbærra félagsmanna, en krafa um slíkt skal koma fram minnst fimm dögum fyrir framhaldsaðalfund, og skal krafan vera studd af 20% fullgildra félagsmanna.
Verði félagið lagt niður skal eignum þess ráðstafað eftir því sem aðalfundur ákveður, enda verði þeim varið á þann hátt, sem helst getur samræmst markmiðum félagsins, að mati fundarmanna.

14. gr.
Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
 

 


Til baka