Lög Augnlæknafélagsins

1. grein
Félagið heitir Augnlæknafélag Íslands (Icelandic Ophthalmological Society). Heimili þess er í Reykjavík.

2. grein
Félagar geta þeir læknar orðið, sem fengið hafa sérfræðileyfi í augnlækningum á Íslandi.

3. grein
3. grein – Hlutverk félagsins er:
a. Að stuðla að sem bestri augnlæknaþjónustu við almenning.
b. Að efla samheldni íslenskra augnlækna
c. Að gæta hagsmuna augnlækna og vera í forsvari fyrir þá
d. Að stuðla að símenntun og vísindastörfum augnlækna.

4. grein
Í félaginu skulu haldnir fundir svo oft sem verkefni gefast. Stjórn félagsins boðar félagsfund með minnst viku fyrirvara.

5. grein
Stjórn Augnlæknafélags Íslands skal skipuð formanni, gjaldkera og ritara. Stjórn skal kosin á aðalfundi og er hver stjórnarmeðlimur kosinn til 3 ára.  Stjórnarmenn má ekki endurkjósa í sama embætti tvö tímabil í röð, þó er heimilt að framlengja kjör stjórnar eða einstakra stjórnarmanna um eitt ár á aðalfundi, telji 2/3 fundarmanna það þjóna hagsmunum félagsins. Þriggja manna uppstillinganefnd skal kosin á félagsfundi fyrir komandi stjórnarkjör og koma tilnefningum til stjórnar eigi síðar en viku fyrir aðalfund. Lausar stjórnarstöður skal einnig auglýsa í fundarboði aðalfundar 2 vikum fyrir aðalfund. Kosningu stjórnar skal hagað þannig að eitt árið er kosinn formaður og gjaldkeri og annað árið ritari og þá skal einnig kosinn endurskoðandi til 3 ára. Ef fleiri en einn eru í kjöri til sama embættis ræður afl atkvæða, en hlutkesti sé um jafna atkvæðatölu að ræða. Gangi stjórnarmaður úr stjórn skal kosið í hans stað á næsta félagsfundi.

6. grein
Stjórnin annast allar framkvæmdir félagsins þær er félagsfundur eða stjórn hefur ekki ráðstafað á annan veg. Stjórn félagsins getur tilnefnt félagsmenn í nefndir og borið upp til samþykkis eftir því sem tilefni er til. Formaður er í forsvari og boðar stjórnarfundi, gjaldkeri sér um reikninga, bókhald félagsins ásamt félagatali og ritari sér um fundargerðir og skjalavörslu. Formaður deilir öðrum verkefnum. Prókúruhafi er gjaldkeri félagsins en formaður í forföllum hans.

7. grein
Félagsfund skal halda ef 1/3 hluti félagsmanna æskir þess.

8. grein
Aðalfundur getur valið heiðursfélaga, lækna, vísindamenn eða aðra sem félagið vill heiðra.  Skal það gert á aðalfundi með samþykki ¾ hluta fundarmanna.

9. grein

Aðalfund skal halda árlega á fyrsta ársfjórðungi. Er hann því aðeins lögmætur að viðstaddur sé a.m.k. helmingur félagsmanna og löglega til hans boðað.  Stjórn félagsins boðar til aðalfundar með minnst 2 vikna fyrirvara. Atkvæðisrétt hafa þeir sem greitt hafa félagsgjald. Læknar sem látið hafa sf störfum fyrir aldurs sakir eða sjúkleika skulu undanþegnir félagsgjaldi.

Dagskrá aðalfundar:
1. Skýrsla stjórnar
2. Gjaldkeri leggur fram enduskoðaða reikninga félagsins.
3. Kosning stjórnarmanna og endurskoðanda þegar það á við.
4. Félagsgjald ákvarðað
5. Lagabreytingar
6. Önnur mál

10. grein
Breytingar á lögum félagsins er hægt að gera á aðalfundi með samþykki 2/3 fundarmanna.  Tillögu að lagabreytingu skal senda stjórn félagsins 4 vikum fyrir aðalfund og skal tillagan send til félagsmenna með aðalfundarboði a.m.k. 2 vikum fyrir aðalfund.


Til baka