Frá Orðanefnd - 58

Á Orðanefndarfundi 15. mars 2018 var meðal annars farið yfir fræðiheiti sem innihalda ensku orðin „sign“ (L. signum) og „symptom“ (G. symptoma). Þessi tvö heiti hafa um aldaraðir verið vandlega aðgreind á grundvelli þeirra hugtaka sem að baki liggja og ritaður hefur verið fjöldi fræðilegra greina og hagnýtra bóka um þau sjúkdómsmerki, teikn (E. sign) og einkenni (E. symptom) sem gefa til kynna heilsufrávik og kvilla af einhverju tagi eða tengjast tilteknum sjúkdómum og æskilegt er að læknar þekki. Einföld lýsing á slíkri aðgreiningu er sú að „sign“ sé sjúkdómsmerki sem læknir getur greint við skoðun eða rannsókn, en að „symptom“ sé sjúkdómsmerki sem einstaklingur finnur sjálfur fyrir. Það er þó auðvitað svo að mörg sjúkdómsmerkin eru greinanleg bæði af lækni og einstaklingi sjálfum og að þau flokkast þá ýmist sem „sign“ eða „symptom“.

 

Enska heitið „sign“ hefur fyrir löngu síðan fengið íslensku þýðinguna „teikn“ í Íðorðasafni lækna og heitið „symptom“ hefur sömuleiðis fengið þýðinguna „einkenni“. Við þeim þýðinum var ekki hróflað nú. Í erlendum læknisfræðiorðbókum má svo finna fjöldann allan af samsettum fræðiheitum sem innihalda þessi orð. Öll slík heiti í Íðorðasafni lækna voru yfirfarin og endurskoðuð, einkum skilgreiningar þeirra, og örfáum nýjum var bætt við.

 

Hér verða tekin nokkur dæmi um ýmislegt það sem færslur safnsins í Orðabankanum hjá Stofnun Árna Magnússonar (http://www.ordabanki.hi.is/wordbank/search) hafa að geyma: „Accessory sign“ (fylgiteikn): Sjúkdómsmerki sem getur fylgt tilteknum sjúkdómi en er ekki eitt af meginteiknum hans. „Clinical sign“ (klínískt teikn): Sjúkdómsmerki sem greina má við klíníska skoðun eða með klínísku prófi. „Diagnostic sign“ (greinandi teikn): Sjúkdómsmerki sem er svo afgerandi teikn um tiltekinn sjúkdóm að læknir getur greint hann af því einu. „Physical sign“ (líkamlegt teikn): Sjúkdómsmerki sem greina má með líkamsskoðun, s.s. með áhorfi, þreifingu, áslætti eða hlustun. „Accidental symptom“ (tilfallandi einkenni): Einkenni sem er til staðar í tilteknum sjúkdómi en er ekki í beinum tengslum við hann. „Clinical symptom“ (klínískt einkenni): Sjúkdómsmerki eða sjúkdómseinkenni sem einstaklingur finnur fyrir sjálfur, en greina má einnig við klíníska skoðun. „Constitutional symptom“ (almennt einkenni): Sjúkdómseinkenni sem bendir til áhrifa sjúkdóms á allan líkamann. „Localizing symptom“ (staðsetningareinkenni): Sjúkdómseinkenni sem gefur til kynna hvar tiltekið mein eða meinsemd er staðsett. „Presenting symptom“ (fyrsta einkenni, komueinkenni, meginkvörtun): Það sjúkdómseinkenni sem fær sjúkling til þess að leita sér læknisfræðilegrar aðstoðar. „Prodromal symptom“ (fyrirboðaeinkenni, undanfaraeinkenni): Snemmkomið sjúkdómseinkenni, sem birtist jafnvel áður en ljóst er að sjúkdómur er á ferðinni. „Withdrawal symptom (fráhvarfseinkenni): Einkenni sem birtist þegar einstaklingur hættir að nota ávanabindandi efni eða tiltekin lyf.