Frá Orðanefnd - 57

Á Orðanefndarfundi 12. apríl 2018 var farið yfir ýmis orð sem notuð eru um læknisfræðilegar rannsóknir, kannanir, próf, prófanir og tilraunir, svo sem ensku heitin: „experiment“, „study“, „survey“, „test“ og „trial“. Mörg önnur fræðiheiti af þessum toga hafa verið þýdd með almenna íslenska orðinu „rannsókn“ og þarf einnig að skoða vandlega, sem dæmi má nefna: „analysis“, „examination“ „investigation“ og „research“. 

Við fræðilega umfjöllun er æskilegt að þessi heiti séu notuð á samræmdan hátt þannig að alltaf sé ljóst hvað við er átt, s.s. könnun, prófun, rannsókn eða tilraun, og að mismunandi orðanotkun spilli ekki skilningi í mikilvægum samskiptum. Orðabókarvinnan felst meðal annars í því að skilgreina þau hugtök sem liggja að baki hverju fræðiheiti og að beina notkun heitanna í samræmdan farveg. Með því er stefnt að þeirri nákvæmni sem talin er nauðsynleg í vönduðum fræðilegum samskiptum. Algengt er hins vegar að hvert fræðiheiti eigi sína sérstöku upprunasögu, sem á sínum tíma tók ekki endilega mið af aðgreinandi, fræðilegri nákvæmni. Þetta á við um bæði alþjóðleg og íslensk fræðiheiti. Fullkomin samræming almennra heita er því oft erfið þegar tiltekin hefð hefur skotið rótum. Hér verða gefin nokkur dæmi úr vinnu og niðurstöðum nefndarinnar. 

Íslenska heitið „rannsókn“ kemur fyrir í rúmlega 50 færslum í Íðorðasafni lækna og hefur verið notað til að þýða um 20 mismunandi ensk fræðiheiti. Algengust í þeim hópi eru „study“, „research“, „test“ og „analysis“. Heitið „rannsókn“ er því alls ekki sérækt heiti. 

Orðanefndin brást við með þeim hætti að gera tilraun til að samræma íslensku þýðingarnar á eftirfarandi hátt með rökstuðningi í tilgreindum skilgreiningum: „experiment“ verði „tilraun“ (Rannsókn sem gerð er til að uppgötva, sannreyna eða hrekja tiltekna staðreynd eða tilgátu); „test“ verði „próf“ (Sérstök skilgreind aðferð (prófun eða rannsókn) til að skoða, kanna, meta eða greina tiltekið fyrirbæri); „trial“ verði „prófun“ (Skipulögð athugun eða könnun þar sem tiltekinni aðferð eða meðferð er beitt til að meta hvort hún ber árangur); „study“ verði „rannsókn“ (Nákvæm og oft vandlega skipulögð fræðileg skoðun eða könnun á einhverju) og „survey“ verði „könnun“ (Rannsókn þar sem upplýsingum er safnað á kerfisbundinn hátt án þess að gert sé sérstakt inngrip í feril þess sem rannsaka á). Forvitnilegt væri að heyra álit annarra lækna á þessum ákvörðunum nefndarinnar.