Frá Orðanefnd - 56

Á fundi Orðanefndar LÍ þann 15. febrúar 2018 var samþykkt að gerð yrði breyting á íslenskri þýðingu á enska fræðiheitinu „glomerule“ (L. glomerulus renis), þannig að aðalheitið yrði „gaukull“ en að íslenska orðið „nýrahnoðri“ yrði skráð sem samheiti. Á næsta fundi nefndarinnar 15. mars 2018 var svo farið yfir allar þær færslur í Íðorðasafni lækna í Orðabankanum sem innihalda orðhlutann „glomerul“ og gerðar tilsvarandi breytingar á íslenskri þýðingu þeirra. 

Latneska orðið „glomerulus“ er svonefnt smækkunarheiti, myndað af nafnorðinu „glomus“ sem má þýða með íslensku orðunum bolti, hnöttur eða kúla. Glomerulus er þá lítill bolti, lítill hnöttur eða lítil kúla. Aðrar þýðingar sem finna má eru hnoðri og hnoða. Tvö fyrirbæri með þessu heiti eru skráð í Íðorðasafni lækna, annars vegar: „Æðahnykill í fyrsta hluta nýrungs (nephron). Annast síun blóðs til að mynda þvag.“ og hins vegar: „Örsmátt hnatt- eða kúlulaga fyrirbæri annars staðar en í nýrum, s.s. háræða- eða taugaþráðahnoðri.“ Ákveðið var að leggja áherslu á þessa aðgreiningu, þannig glomerulus í nýra mundi fá sérheitið „gaukull“, en að glomerulus utan nýrna mundi áfram halda heitinu „hnoðri“. Nefna má að orðið gaukull finnst í Íslenskri orðabók og í Íslensku orðsifjabókinni með skýringunni „lítill hnykill“. Það er talið vera nýyrði frá 19. öld. 

Í samsettum fræðiheitum er orðið „gaukull“ er vissulega liprara en „nýrahnoðri“. Sem dæmi má nefna sjúkdómaheitin: „glomerulonephritis“ = gauklabólga (nýrahnoðrabólga), „glomerulopathy“ = gauklakvilli (nýrahnoðrakvilli) og „glomerulosclerosis“ = gauklahersli (nýrahnoðrahersli) og vefjafræðiheitin: „glomerular zone“ = gauklabelti (nýrahnoðrabelti), „glomerular capillary“ = gaukulháræð (nýrahnoðraháræð), „glomerular capsule“ = gaukulhýði (nýrahnoðrahýði) og „glomerular basement membrane“ = grunnhimna gaukla (grunnhimna nýrahnoðra).