Frá Orðanefnd - 55

Í Íðorðasafni lækna má finna yfir 30 færslur sem innihalda enska heitið „pregnancy“. Við skoðun á þeim má sjá að orðið er notað í læknisfræðilegu samhengi um tiltekið ástand, það að kona er þunguð (tímabilið frá getnaði til fæðingar), og einnig um staðsetningu fósturs og þungunarvefja í legi eða utan legs. Ákveðið var á orðanefndarfundi 15. janúar 2018 að reyna að aðgreina þetta tvennt með tveimur íslenskum heitum, orðinu „þungun“, sem vísaði til ástandsins, og orðinu „þykkt“, sem vísaði til staðsetningarinnar. Orðið „þykkt“ er gamalt í málinu og er í Íslenskri orðabók sagt hafa vísað í „gildleika“, til dæmis gildleika þungaðrar konu. Orðið þungun var þó alltaf sett inn sem samheiti í færslum Íðorðasafnsins þegar vísað var til staðsetningar fósturs og þungunarvefja. Í öðru samhengi getur orðið „þykkt“ auðvitað vísað til þess hversu þykkur einhver hlutur er.

Sem dæmi um samsett heiti má nefna: „clinical pregnancy“: klínísk þungun (þungun sem greina má við klíníska skoðun), „biochemical pregnancy“: lífefnafræðileg þungun (þungun sem aðeins verður greind með lífefnafræðilegri mælingu), „twin pregnancy“: tvíburaþungun (þungun þar sem fóstur eru tvö), „multiple pregnancy“: fleirburaþungun (þungun þar sem fóstur eru tvö eða fleiri), „uterine pregnancy“: legholsþykkt (staðsetning þungunarvefja í legholi), „extrauterine pregnancy“utanlegsþykkt (staðsetning þungunarvefja utan leghols), „tubal pregnancy“: eggjaleiðaraþykkt (staðsetning þungunarvefja í eggjaleiðara) og „ovarian pregnancy“: eggjastokksþungun (staðsetning þungunarvefja í eggjastokki).

Latneska heitið „gravida“, sem tekið hefur verið óbreytt inn í ensku, var einnig tekið til skoðunar. Það er notað um konu sem gengur með eða er þunguð. Ýmis samsett heiti má finna í Íðorðasafni lækna, s.s. „primigravida“: frumbyrja (kona sem er þunguð í fyrsta sinn), „secundigravida“: tvíbyrja (kona sem er þunguð í annað sinn), „tertigravida“: þríbyrja (kona sem er þunguð í þriðja sinn) og „multigravida“ eða „plurigravida“: fjölbyrja (kona sem er þunguð og hefur verið þunguð a.m.k. einu sinni áður). Rétt er að geta þess að einnig er til heitið „nulligravida“: óbyrja, og má nota það um konu sem aldrei hefur orðið þunguð.