Frá Orðanefnd - 54

Á starfsárinu 2017 vann Orðanefnd Læknafélags Íslands að þriðja hefti sínu í ritröðinni: Orðasafn í líffærafræði. Í þetta sinn hafði verið valið að takast á við heiti í æðakerfi líkamans. Markmiðið var, eins og með fyrri heftunum tveimur, að safna saman og birta á ensku, íslensku og latínu helstu heitin í hverju líffærakerfi með viðeigandi skilgreiningum hugtaka. Hannes Petersen, læknir og prófessor í líffærafræði, var eins og áður samstarfsmaður nefndarinnar um þetta verkefni og Ágústa Þorbergsdóttir, málfræðingur á Stofnun Árna Magnússonar, var nefndinni til ráðuneytis.

 

Færslur með íslenskum og latneskum heitum úr æðakerfinu voru dregnar út úr Íðorðasafni lækna í Orðabankanum (http://www.ordabanki.hi.is/wordbank/search) og latnesku heitin borin saman við hina alþjóðlegu útgáfu af líffæraheitunum, Terminologia Anatomica frá 2011. Ensku heitunum var síðan bætt inn í hverja færslu í Orðabankanum og sömuleiðis skilgreiningum á íslensku. Á þann hátt varð að lokum til 56 blaðsíðna hefti, Orðasafn í líffærafræði - III. Æðakerfið, sem gefið var út í árslok 2017. Heftið er fyrst og fremst ætlað nemendum í heilbrigðisfræðum, en getur komið að gagni hjá heilbrigðisstarfsmönnum og öllum þeim sem áhuga hafa á líffærum mannsins.

 

Heftið skiptist í fjóra meginkafla: Almenn heiti, slagæðar, bláæðar og vessaæðar, sem innihalda æðaheitin í viðeigandi röð innan hvers kafla. Þá fylgja í lokin tveir orðalistar, ensk-íslenskur og íslensk-enskur, með öllum sömu heitunum í stafrófsröð. Heftið var gefið út á prenti og hefur verið til sölu í Bóksölu stúdenta í Háskóla Íslands. Einnig má finna rafræna útgáfu hjá Þjóðarbókhlöðunni (https://rafhladan.is/handle/10802/15903).