Frá Orðanefnd - 52

Hvítblæðiheiti voru tekin fyrir á orðanefndarfundi 23. febrúar 2017. Ákveðið var að fara yfir og endurskoða þær færslur sem finna mátti með því að leita í Orðabankanum að latnesk-enska heitinu „leukemia“. Í ljós komu rúmlega 30 færslur, sem skoðaðar voru vandlega. Þetta samsetta heiti er komið úr grísku þar sem „leukos“ merkir hvítur, „haima“ merkir blóð og viðskeytið „-ia“ vísar í ástand. Leukemia er þannig sjúklegt ástand sem getur einkennst af hvítu blóði, þ.e. ef fjölgun hvítra blóðkorna í blóðrás nógu mikil til að framkalla hvítan litblæ.

 

Hvítblæði (leukemia) er nú skilgreint þannig í Íðorðasafni lækna: „Illkynja sjúkdómur (krabbamein) sem á uppruna í blóðmyndandi frumum beinmergs og einkennist af vanþroska og afbrigðilegum frumum í blóði.“ Um getur verið að ræða nokkrar tegundir af slíkum sjúkdómi og taka nafngiftir mið af framgangi sjúkdómsins, bráðahvítblæði (acute leukemia), langvinnt hvítblæði (chronic leukemia) og þeirri megintegund frumna sem fjölgar sér og birtist með afbrigðilegu útliti í beinmerg og blóði, s.s. eitilfrumuhvítblæði (lymphocytic leukemia) og mergfrumuhvítblæði (myeloid leukemia). Einnig taka hin ýmsu hvítblæðiheiti mið af undirtegundum frumna, s.s. daufkyrningahvítblæði (neutrophilic leukemia), rauðkyrningahvítblæði (eosinophilic leukemia), blákyrningahvítblæði (basophilic leukemia), einkjörnungahvítblæði (monocytic leukemia), plasmafrumuhvítblæði (plasma cell leukemia) og stofnfrumuhvítblæði (stem cell leukemia).

 

Loks má nefna heiti á tveimur heilkennum beinmergs- og blóðsjúkdóma, sem geta verið forstig hvítblæðis og líkjast að nokkru leyti hvítblæði vegna afbrigðilegrar fjölgunar og afbrigðilegs útlits frumna í beinmerg, svonefnt mergvaxtarheilkenni (myeloproliferative syndrome) og mergrangvaxtarheilkenni eða mergmisþroskaheilkenni (myelodysplastic syndrome).