Frá Orðanefnd - 51

Veturinn 2015-2016 snerist vinna Orðanefndar læknafélaganna að mestu um undirbúning að útgáfu heftisins: „Orðasafn í líffærafræði - II. Líffæri mannsins“. Markmiðið var að birta þar, á ensku, íslensku og latínu, í aðskildum köflum, ýmis almenn heiti í líffærafræðinni og síðan helstu heitin í hverju líffærakerfi fyrir sig. Í upphafi var safnað rúmlega 600 slíkum heitum og síðan farið yfir þau í röð eftir líffærakerfunum á nefndarfundum. Þar sem bókin Líffæraheitin (Nomina Anatomica) frá 1995 innihélt ekki ensk heiti, aðeins þau latnesku og íslensku, var fyrsta verkið að koma ensku heitunum inn í viðkomandi færslur orðasafnsins. Þá var bætt við íslenskri skilgreiningu eða lýsingu á hverju fyrirbæri fyrir sig. Hannes Petersen, prófessor í líffærafræði, sat í ritstjórninnni og las yfir orðalistana, gaf ábendingar og gerði tillögur um heitin og skilgreiningarnar í hverjum kafla fyrir sig. Þessari viðamiklu úrvinnslu lauk ekki fyrr en í september 2016, þegar efnið var sent til prentunar.

 

Í heftinu, sem telur 70 blaðsíður, eru 12 kaflar og síðan tveir einfaldir orðalistar, annar ensk-íslenskur og hinn íslensk-enskur, með öllum heitunum í viðkomandi stafrófsröð. Kaflaheitin eru þessi: Almenn heiti; Stöður, ásar, snið og hlutar líkamans; Líkamssvæði; Hjartað og æðar þess; Öndunarfæri; Meltingarfæri; Þvag- og kynfæri; Innkirtlakerfi; Eitilkerfi; Taugakerfi; Skynfærakerfi og loks Húð, húðbeður og brjóst.  Nefndin vonast til að heftið megi nota við kennslu og nám í heilbrigðisfræðum hvers konar og komi einnig sem flestum starfsmönnum í heilbrigðisþjónustunni að einhverju gagni. Aðalmarkmið útgáfunnar er að koma á framfæri og varðveita íslensk heiti á líffærum mannsins. Heftið er til sölu í Bóksölu stúdenta í Háskóla Íslands, en rafræna útgáfu má einnig nálgast á rafhladan.is (http://hdl.handle.net/10802/12627).