Frá Orðanefnd - 50

Á fundi orðanefndar í apríl 2016 var farið yfir orðalista sem tengdist hugtakinu „simulation“, á íslensku „herming“. Þjálfun í vissum þáttum klínískra fræða fer nú fram á „simulation center“, hermistöð, hermingarmiðstöð, þar sem búnaður er fyrir hendi til að herma eftir og endurtaka atvik í sjúkdómsferli og aðstæður við margvíslega klíníska viðburði, án þess að sjúklingur sé til staðar. Ýmis tiltölulega einfaldur hermibúnaður hefur verið fyrir hendi um langt skeið, svo sem við kennslu í skyndhjálp, svo sem patient manikin (sjúklingabrúða, meðferðarbrúða) og training manikin (æfingabrúða, þjálfunarbrúða). Nú er hins vegar kominn fram mun flóknari búnaður með tækjum og forritum sem gerir það að verkum að líkja má mjög nákvæmlega eftir aðstæðum og margvíslegum óvæntum atvikum í sjúkdómsferli sjúklings og æfa rétt viðbrögð þar til þau eru orðin starfsmanninum eða nemandanum fyllilega töm.

Við þessa þróun verða til ný hugtök og orð sem nauðsynlegt er að fái nothæf íslensk heiti. Nefna má sagnorðið simulate (að líkja eftir læknisfræðilegum aðstæðum eða sjúkdómsferlum í þeim tilgangi að æfa eða þjálfa nemendur eða starfsmenn heilbrigðiskerfis), og nafnorðin simulator (hermir), medical simulator (sjúkdómshermir, læknisfræðilegur hermir), patient simulator (sjúklingahermir, sjúkrahermir), og simulation laboratory (hermistofa, hermingarstofa).