Frá Orðanefnd - 49

Á fundi orðanefndar í mars 2016 var meðal annars farið yfir færslur úr Íðorðasafni lækna þar sem fyrir koma latneska orðið appendix og enska orðið appendage (viðhengi). Bæði þessi orð eru notuð í samsettum heitum í líffærafræðinni og eru einnig vel þekkt í almennu ensku máli um viðbót eða viðauka. Hið líffærafræðilega fyrirbæri appendix (appendage) er annars vegar skilgreint sem: „Aukavefur sem hangir sem viðauki á líffæri, oft talinn vera leifar af tilteknum vef úr fósturlífi“ (eistalyppuauki, appendix of epididymis; legpípuauki, appendix of uterine tube) og hins vegar „Mjótt, ormlaga viðhengi á digurgirni, með holi sem opnast inn í lokaða enda botnristils“ (botnlangi, vermiform appendix, cecal appendix).
 

Enska orðið appendage er einnig notað í fleirtölu (appendages) í líffærafræðinni, á mjög sérstakan hátt, um minni líffæri sem tengjast stærra líffæri, sem ef til vill má þá nefna aukalíffæri og aðallífæri. Dæmi um þetta eru: appendages of eye (aukalíffæri auga: augnlok, tárafæri, tárupoki og augnvöðvar), fetal appendages (fósturviðhengi: ytri líffæri og vefir sem tengjast fóstri á meðgöngutíma, fylgja, fósturbelgir, nestispoki og naflastrengur), appendages of skin (húðfæri, húðlíffæri: þau líffæri sem talin eru tilheyra húð, neglur, svitakirtlar, fitukirtlar, hár og brjóstkirtlar.) og uterine appendages (aukalíffæri legs: tiltekin líffæri sem tengjast legi, legpípur, eggjastokkar og bandvefsbönd).