Frá Orðanefnd - 48

Á fundi orðanefndar í febrúar 2016 var farið yfir efni í tvo fyrstu kafla væntanlegs orðasafns í líffærafræði, sem nefndin gerði sér vonir um að tilbúið yrði til útgáfu fyrir árslok. Um er að ræða annað heftið í ritaröðinni Orðasafn í líffærafræði. Fyrsta heftið var gefið út í árslok 2013 og fjallaði það um stoðkerfi líkamans: bein, liðamót og vöðva. Annað heftið mun innihalda helstu líffæraheitin á ensku, íslensku og latínu. Í fyrstu köflum þess verða tilgreind heiti á stöðum, ásum, sniðum, hlutum líkamans og helstu svæðum hans. Heftin eru fyrst og fremst ætluð nemendum í heilbrigðisfræðum hvers konar, en geta einnig komið að gagni í daglegu starfi hjá starfsmönnum í heilbrigðiskerfinu.
 

Hér verða sýnd nokkur dæmi um heiti í umræddum köflum. Dorsal position (baklega) vísar í þá líffærafræðilegu stöðu líkamans að liggja á bakinu þannig að andlit og framhlið snúi upp. Longitudinal axis (langás) vísar í ímyndaða línu sem liggur eftir endilöngu líffæri eða líkama. Anatomical planes (líffærafræðileg snið) eru ímyndaðar sneiðingar gegnum líkamann, sem skipta honum, eftir því sem við á, í fram- og afturhluta, hægri og vinstri hluta eða efri og neðri hluta. Sem dæmi má nefna ennissnið (frontal plane) og lásnið (horizontal plane). Af líkamshlutum má nefna höfuð (head), háls (neck), bol (trunk), efri útlim (superior limb) og neðri útlim (inferior limb). Líffærafræðilega skilgreind svæði líkamans (regions of the body) eru fjölmörg, en í heftinu eru aðeins tilgreind helstu svæði þessara líkamshluta, svo sem höfuðsvæði, hálssvæði og búksvæði.