Frá Orðanefnd - 47

Á fundi orðanefndar í janúar 2016 var fjallað um ýmis hljóð sem heyra má við hlustun, einkum hjarta- eða æðahlustun. Hefð er fyrir því að nota íslenska orðið „hjartahljóð“ (heart sounds) um þau eðlilegu hljóð sem heyrast frá hjartalokum við hlustun. Um leið má minna á orðið „öndunarhljóð“ (breath sounds), sem notað er um þau eðlilegu hljóð sem heyra má við lungnahlustun.

Hljóð, sem ekki eiga að heyrast við hjarta- eða æðahlustun, hafa gjarnan verið nefnd „óhljóð“ eða „aukahljóð“. Þeim hafa oft verið gefin sérstök fræðiheiti, bæði til að lýsa hverju hljóði fyrir sig og eins til að gefa til kynna af hvaða uppruna það er. Algengustu ensku orðin af þessu tagi eru murmur (nú 32 færslur í Íðorðasafninu), bruit (7 færslur), click (2 færslur), rub (2 færslur) og hum (2 færslur). Víst er að erfitt getur verið að sameinast um það hvaða orð lýsir hverju hljóði best, en æskilegt er að íslensku heitin spegli vel þau erlendu heiti sem fræðin viðurkenna í þessu augnamiði. Yfirferð orðanefndarinnar snerist um þessa meginstefnu og að samræma íslensku heitin. Tveir hjartasérfræðingar voru að auki hafðir með í ráðum.

Þýðingar á enska heitinu „murmur“ voru samræmdar með því að íslenska aðalheitið yrði „óhljóð“, en samheitin „murr“, „dynur“ og „niður“ voru einnig birt í viðkomandi færslum. Erfitt var að samræma þýðingar á enska heitinu „bruit“ og þar birtast íslensku þýðingarnar „dynur“, „þytur“ og „óhljóð“ í grunnfærslunni. Auðveldara var að samræma þýðinguna á „click“, en þar var notað íslenska orðið „smellur“. Sama máli gegndi um enska heitið „rub“. Þar varð samræmda íslenska heitið „núningshljóð“. Loks var tekist á við enska heitið „hum“ og íslensku heitin „niður“ og „suð“ síðan skráð í orðasafnið.

Rétt er að taka fram að íslenska orðið „murr“, sem valið var á sínum tíma sem íslenska aðalheitið fyrir „murmur“, hefur að áliti hjartasérfræðinganna ekki náð vinsældum meðal lækna, þó vissulega sé það notað í alþjóðlega sjúkdómaflokkunarkerfinu IDC-10.