Frá Orðanefnd - 46

Á fundum orðanefndar í nóvember og desember 2015 var fjallað um ýmis orð sem tengjast líffæra- eða sjúkdómafræði hjartans. Í fjölmörgum, samsettum fræðiheitum, sem beinlínis vísa til hjarta, má gjarnan finna upprunatengingu við gríska nafnorðið „kardia“, en það merkir hjarta. Latneska nafnorðið, sem notað er sem heiti á hjartanu, er hins vegar „cor“. Það má finna í nokkrum latneskum heitum, sem enn lifa í fræðimálinu, svo sem cor primordiale (frumhjarta), cor triloculare (þríhólfa hjarta), cor quadricameratum (ferhólfa hjarta), cor bovinum (nautshjarta, uxahjarta) og cor pulmonale (lungnahjartastækkun).

Lýsingarorðin cardiac og cardial, sem eru af hinum gríska uppruna, eru fyrst og fremst notuð þannig að „cardiac“ (85 færslur í Íðorðasafni lækna) vísar í hjarta, en „cardial“ (20 færslur í Íðorðasafni lækna) vísar ýmist í munnahluta maga (cardial part of stomach) eða tiltekna hluta hjartans (endocardium, myocardium, epicardium eða pericardium). Til er einnig nafnorðið „cardiac“, sem vonandi er orðið alveg úrelt, en það var fyrrum ýmist notað til að tákna hjartalyf eða hjartasjúkling.

Í samsettum heitum er enska lýsingarorðið „cardiac“ þýtt með íslenska nafnorðinu „hjarta“. Ýmis dæmi má nefna: cardiac asthma (hjartaasma), cardiac aneurysm (hjartagúlpur), cardiac arrest (hjartastöðvun), cardiac cirrhosis (hjartalifrarskorpnun), cardiac dilatation (hjartaþensla), cardiac edeme (hjartabjúgur), cardiac failure (hjartabilun), cardiac hypertrophy (hjartaofstækkun), cardiac massaga (hjartahnoð), cardiac output (hjartaútfall), cardiac pacemaker (hjartagangráður), cardiac shock (hjartalost), cardiac surgery (hjartaskurðlækningar), cardiac syncope (hjartayfirlið), cardiac tamponade (hjartaþröng) og cardiac vale (hjartaloka).