Frá Orðanefnd - 45

Á orðanefndarfundi í september 2015 var fjallað um enska heitið „scope“. Það er komið úr grísku, af sögninni „skopein“ sem táknar að skoða eða athuga. Hugtakið er skilgreint þannig í Íðorðasafni lækna: Áhald eða tæki til að skoða, fylgjast með og gera viðfangsefnið sýnilegt. Íslensku heitin eru „sjá“ eða „spegill“, sem sjá má í vel þekktum heitum eins og smásjá (microscope) og kokspegill (pharyngoscope).

Á síðustu árum hefur margoft komið upp umræða meðal íslenskra lækna um það hvort ekki sé rangt og úrelt að nota heitið „spegill“ vegna þess að í viðkomandi áhöldum og tækjum séu ekki lengur notaðir speglar til að leiða ljós á skoðunarstaðinn eða senda myndir til skoðanda. Við þessari tæknilegu gagnrýni hefur verið brugðist með því að leggja meiri áherslu á íslenska orðið „sjá“ sem aðalheiti, en halda samt eldra orðinu „spegill“ sem samheiti fyrst um sinn. Ýmis dæmi um samsett tækjaheiti má nefna: augasteinssjá, augnspegill (phacoscope), blöðrusjá, blöðruspegill (cystoscope), eyrnasjá, eyrnaspegill (otoscope), garnasjá, garnaspegill (enteroscope), kviðarholssjá, kviðarholsspegill (laparoscope), leggangasjá, leggangaspegill (colposcope), nefsjá, nefspegill (rhinoscope), ristilsjá, ristilspegill (colonoscope) og þvagrásarsjá, þvagrásarspegill (urethroscope).

Ef heitið „sjá“ nær yfirhöndinni má gera ráð fyrir að hitt orðið hverfi smátt og smátt. Það er svo annað mál hvort ýmis skyld heiti, sem almenningur þekkir vel og hefur vanist á að nota, eins og blöðruspeglun, magaspeglun, liðspeglun og ristilspeglun, muni einnig hverfa.