Frá Orðanefnd - 44

Á orðanefndarfundi í maí 2015 var einnig rætt um kynhormónaefnin androgen (efni sem hvetur til þroskunar karlkynfæra í fósturlífi og framkallar síðan og viðheldur kyneinkennum karlmanns) og estrogen (efni sem hvetur til þroskunar kvenkynfæra í fósturlífi og framkallar síðan og viðheldur kyneinkennum konu).

Tekin var sú ákvörðun að íslensku aðalheitin yrðu „karlhormón“ og „kvenhormón“, en að umrituðu tökuorðin „andrógen“ og „estrógen“ (östrógen) væru viðurkennd og skráð sem samheiti í safninu. Samþykktur var tvenns konar ritháttur á ensku heitum kvenhormónanna: estrogen og oestrogen. Loks var ákveðið að varðveita í safninu tvö eldri heiti, karlkynsörvi og kvenkynsörvi, þó að þau séu sennilega ekki notuð lengur.

Af samsettum heitum má nefna: adrenal androgen (nýrnahettukarlhormón), adrenal estrogen (nýrnahettukvenhormón), androgenic ablation (karlhormónasvipting), androgenic alopecia (karlaskalli), androgenic steroid (karlvirkur eða karlörvandi steri), androgen receptor (karlhormónaviðtaki), estrogenic blockade (kvenhormónabæling), estrogenic steroid (kvenvirkur eða kvenörvandi steri), estrogen receptor (kvenhormónaviðtaki) og estrogen replacement (kvenhormónauppbót).