Samningur um samskipti lækna og fyrirtækja sem framleiða og flytja inn lyf - frá 2020

Þann  22. janúar sl. undirrituðu Læknafélag Íslands, Frumtök, Félag atvinnurekenda og Samtök verslunar og þjónustu fyrir hönd félagsmanna sinna og aðildarfyrirtækja, endurnýjaðan samning um samskipti milli lækna og fyrirtækja sem framleiða og flytja inn lyf. 

Samningurinn var undirritaður á Læknadögum í Hörpu. Samningurinn formfestir samskipti lækna og lyfjafyrirtækja með það fyrir augum að aðilar njóti faglegs sjálfstæðis, svo hægt verði að bæta meðferð við sjúkdómum.

Samskipti lækna og lyfjafyrirtækja eru mikilvægur þáttur í þróun sífellt betri lyfjameðferðar við sjúkdómum og í fræðslu lækna um meðferð lyfja.  Bæði læknar og lyfjafyrirtæki hafa að markmiði að bæta meðferð sjúkdóma og líðan sjúklinga.  Samningsaðilar eru sammála um að samskiptum lækna og lyfjafyrirtækja skuli þannig háttað hverju sinni, að hvor aðili sé hinum óháður í einu og öllu.

Til grundvallar samningi þessum eru List of Guiding Principles Promoting Good Governance in the Pharmaceutical Sector, sem samþykktar hafa verið af lyfjaiðnaðinum, félögum heilbrigðisstétta og sjúklingafélögum innan ESB, Reglur EFPIA og Frumtaka um samskipti við heilbrigðisstarfsmenn, heilbrigðisstofnanir og sjúklingasamtök, sem á hverjum tíma eru í gildi ásamt viðaukum við þær reglur, þar sem m.a. er kveðið á um framlög og styrki til heilbrigðisþjónustu eða rannsókna, þóknanir fyrir þjónustu, kostun og gjafir til fagfólks í heilbrigðistétt og hins vegar siðareglur Læknafélags Íslands.Sjá einnig www.frumtok.is/Sidareglur